Jamm ég held bara að við séum að fá allan snjóinn hingað sem ætti að vera á Íslandi núna. Ég er svoleiðis aldeilis...
Allt ennþá hvítt og þegar maður heldur að "já núna er snjórinn að fara og vorið að gefa nasaþef af sér", úps! þá bara fer að snjóa meira. Ekki það að ég sé samt eitthvað óanægð með snjóinn í sjálfu sér en það er nú kominn mars og samkvæmt algengustu tölum að þá á ekki að vera að snjóa ennþá...og svo er Alexander kominn í gegnum tærnar á kuldaskónum sínum og Dísa búin að vera að nota stígvél og ullarsokka, af því að kuldaskórnir hennar eru orðnir of litlir, því alltaf heldur maður að snjórinn sé að fara.
Ég meira að segja setti í einhverju bjartsýniskasti spínatfræ og eina teg. af blómafræjum í potta til að hafa tilbúið í mars því þá yrði svo fínt að geta sett niður blóm. En alltaf lærir maður eitthvað, það fór að koma upp úr pottunum barasta þarnæsta dag og nú er ég farin að óttast að þetta muni vaxa upp úr pottunum hjá mér og hlaupa út áður það verður nógu hlýtt. Við verðum kannski bara að borða "litlubarna"spínat áður til að bjarga því ef ekki verður hægt að skutla þessu út í garð áður en það drepst eða vex uppúr pottunum.
Jebbs þetta er eitt af mínum áhyggjum þessa dagana. :os
Í bekknum mínum í skólanum stendur yfir "frásagnaræði" eins og mig langar að kalla það. Í hverjum einasta tíma núna á einhver einn að standa fyrir framan bekkin og koma með kynningu á einhverju eða einhverja frásögn. Jedúddamía, segji ég nú bara. Var eiginlega að vona að ég aumingja útlendingurinn sem tala svo fyndilega fengi að sleppa því, það myndi hvort eða er enginn skilja mig. En neinei kennarinn vildi sko ekkert heyra á slíkt minnst og ég á að halda mína frásögn 7. mars. Hvað í ósköpunum get ég svo talað um þannig að það skiljist? Það er svona orð og orð sem ég get sagt nokkuð dönskulega en ég get víst ekki bara staðið fyrir framan bekkinn og talið þau upp.
Eitthvað verð ég líka að vita um málefnið því að í lokin eiga hinir í bekknum að koma með spurningar. Og hvað veit ég eitthvað um, hmm jú ég kann að baka en hvað segir maður um bakstur. Einn maður sem er með mér í hóp sagði mér að tala um hesta (hann hefur sko prufað að fara á bak á íslenskum hesti) en ekkert veit ég um það.
Arnar er í þannig námi að hann þarf að kunna lítið um MARGA hluti og hentar það honum vel. Ég hins vegar veit ekkert um flesta hluti.
Jæja þá vitiði það, ágætt að fá að blása aðeins frá sér.
Alexander er byrjaður í Skt. Klemens skólanum og líkar voða vel. Það kemur núna loksins einhver almennileg rútína á skólann hjá honum.
Það er eitt sem ég er afskaplega ánægð með hér í Danmörku og það er hversu auðvelt og þægilegt það er að fá ferskar kryddjurtir. Við keyptum í Nettó í gær þrjá sæmilega stóra potta af kryddi í flottum álpottum (ekki merkilegum sosem en flottum) og stykkið kostaði 20 kr. Nú getur Arnar verið ennþá glaðari við eldamennskuna en áður. ;)
Ég sá í Bilka fyrir rúmlega viku síðan að þeir eru komnir með hina frægu jarðaberjatertu aftur í borðið hjá sér í bakaríinu. Mmmm er það ekki ávísun á það að það sé ekki langt í að jarðaberjatímabilið hefjist. Ég vona það.